Svisslendingurinn Roger Federer batt í dag enda á 81 leikja sigurgöngu Rafael Nadal á leirvelli í tennis þegar hann lagði Spánverjann sannfærandi af velli í úrslitaviðureign Meistaramótsins í Hamborg.
Federer hafði betur í þremur settum, 2-6 6-2 6-0, en fram að viðureigninni hafði Nadal unnið 13 mót í röð á leir. Hann hafði unnið 81 viðureign í röð á leir en síðast tapaði hann á því yfirborði í apríl árið 2005.
Federer hefur haft mikla yfirburði á grasi síðustu ár en lagt mikla áherslu á að bæta leik sinn á leir síðustu misseri til þess eins að standa Nadal ekki eins langt að baki. Svo virðist sem Federer sé að takast ætlunarverk sitt, en gjörólíkt er að spila á annars vegar leir og hins vegar grasi.
Úrslitin gefa góð fyrirheit fyrir opna franska meistaramótið í tennis sem fram fer innan nokkurra vikna, en á því er spilað á leir og hefur Nadal borið sigur úr býtum síðustu tvö ár.