Íslenska landsliðið í körfuknattleik burstaði Lúxemburg 92-63 í öðrum leik sínum á smáþjóðaleikunum í Mónakó í dag. Þetta var annar stórsigur liðsins í röð á mótinu en það mætir heimamönnum á morgun. Íslenska liðið stakk af um miðjan fyrsta leikhlutann í leiknum í dag og eftir það var sigurinn aldrei í hættu.
Logi Gunnarsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 21 stig, Brenton Birmingham skoraði 19 stig, Páll Axel Vilbergsson 13 og Helgi Már Magnússon 10. Miðherjinn Friðrik Stefánsson úr Njarðvík lék sinn 100. landsleik í dag og er fyrir vikið orðinn 11. leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi.