Erlent

Rannsóknarleiðangri til Seres og Vesta frestað

Dawn í smíðum
Dawn í smíðum MYND/ap

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, Nasa, hefur slegið ferð könnunarfarsins Dawn á frest. Dawn átti í þessum mánuði að leggja af stað í rannsóknarleiðangur til smástirnisins Vesta og dvergplánetunnar Seres og kanna byggingu og efnasamsetningu þeirra.

Brottför Dawn hefur verið dregin fram í september. Orsökin er skipulagsvandræða en óttast er að verkefnið stangist á við undirbúning Phoenix-farsins sem heldur til reikistjörnunnar Mars í ágúst.

Ferðalag Dawn mun vara í átta ár. Stefnt er að því að farið nálgist smástirnið Vesta árið 2011 og haldi svo til Seres 2015.

Talið er að Seres hafi að geyma frosið vatn sem vísindamenn vilja ólmir kanna nánar. Útilokað þykir að vatn finnist á Vesta en eldgosavirkni þar í árdaga er vísindamönnum hugleikin. Þess má geta að brot úr Vesta hafa fallið til jarðar sem loftsteinar. Þá er vonast til að skoðanir á Vesta og Seres varpi nýju ljósi á tilurð sólkerfisins en talið er að bæði Seres og Vesta séu afgangar frá myndun reikistjarnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×