Innlent

Íslenskir vísindamenn reyna að binda koltvísýring við basalt

Þórir Guðmundsson skrifar

Íslenskir vísindamenn eru að þróa aðferð til þess að vinna gegn gróðurhúsaáhrifunum með því að dæla koltvísýringi í jarðlög. Aðferðin felst í því að dæla koltvísýringi niður í basaltbergið á fjögur til átta hundruð metra dýpi.

Hugmyndin er að leysa koltvísýringinn upp í kælivatni virkjunarinnar á Hellisheiði við háan þrýsting. Þeim vökva er síðan dælt niður í jörðina um borholur og látinn hvarfast við basaltið.

Einar Gunnlaugsson deildarstjóri rannsókna hjá Orkuveitunni kynnti þessa hugmynd á fundi á Bessastöðum með Barböru Boxer, sem er áhrifamikill þingmaður öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Boxer sagði í samtali við Stöð tvö að hér væri um að ræða ákaflega áhugaverða leið til að vinna gegn hlýnun jarðar. Boxer er nýkomin frá Grænlandi, þar sem hún segist hafa séð afleiðingar gróðurhúsaáhrifanna í bráðnun Grænlandsjökuls.

Um allan heim eru vísindamenn að leita leiða til að koma í veg fyrir losun koltvísýrings í andrúmsloftið, en koltvísýringur stuðlar að gróðurhúsaáhrifunum. Einar Gunnlaugsson, deildarstjóri rannsókna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir að hér sé um alþjóðlegt verkefni að ræða. Verið er að ljúka gerð samstarfssamnings milli Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóli Íslands, Kolumbaháskóli í Bandaríkjunum og Paul Sabatier Háskólinn í Toulouse í Frakklandi.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hafði forgöngu um samstarf íslenskra og bandarískra vísindamanna á þessu sviði. Einar vonast til að hægt verði að byrja að bora þegar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×