Emil Hallfreðsson heldur sæti sínu í byrjunarliði Reggina í dag. Tveir leikir fóru fram á Ítalíu í gær.
Þjálfari Reggina var rekinn í vikunni og Renzo Ulivieri stýrir liðinu í dag. Hann stillir liðinu upp samkvæmt 3-5-2 leikkerfinu og er Emil vinstra megin á miðjunni en ekki á vinstri kantinum eins og hingað til.
Reggina mætir Napoli á útivelli og má búast við erfiðum leik.
Tveir leikir fóru fram í gær og var aðeins eitt mark skorað í þeim. Það gerði Giampaolo Pazzini fyrir Fiorentina sem vann Lazio á útivelli, 1-0. Í hinum leik kvöldsins gerðu AC Milan og Torino markalaust jafntefli.
Massimo Mutarelli, leikmaður Lazio, fékk að líta rauða spjaldið seint í leiknum.
AC Milan er nú komið upp í sjöunda sæti deildarinnar eftir fremur slappa byrjun á tímabilinu. Fiorentina komst með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar í bili en Roma og Juventus geta komist upp fyrir liðið með sigri í dag.
Torino er í tólfta sæti fyrir leiki dagsins og Lazio í því fjórtánda.
Leikir dagsins á Ítalíu:
Cagliari - Sampdoria
Catania - Atalanta
Empoli - Roma
Genoa - Palermo
Livorno - Udinese
Napoli - Reggina
Parma - Siena
Juventus - Inter (kl. 19.30)
Allir leikirnir hófust klukkan 14.00 nema stórleikur helgarinnar, viðureign Juventus og Inter sem verður kvöldleikur dagsins.