Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur ógilt allan árangur Marion Jones í mótum á vegum þess undanfarin sjö ár, síðan í september 2000.
Þetta þýðir að árangur Jones á Ólympíuleikunum í Sydney hefur verið þurrkaður út og aðrir þátttakendur í greinum hennar færðir upp um eitt sæti. Hún vann þrenn gullverðlaun á leikunum og fimm verðlaun samtals.
Jones hefur einnig verið dæmd í tveggja ára bann en í síðasta mánuði ákvað hún að hætta keppni um leið og hún viðurkenndi steranotkun sína.
Hún verður nú að skila öllum verðlaunum sem hún vann sér inn á áðurnefndu tímabili auk verðlaunafjárins síns.
Sambandið hefur einnig ákveðið að verðlaunum liðsfélaga hennar í boðsveitum verður einnig að skila.
Ef þessi staða sem er komin upp er ekki nægilega sérstök getur nú verið að gríski hlauparinn Katerina Thanou fái gullverðlaun fyrir 100 metra hlaup á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.
Hún var dæmd í tveggja ára keppnisbann fjórum áður síðar þegar hún mætti ekki í lyfjapróf á Ólympíuleikunum í Aþenu í heimalandi sínu árið 2004.
Tanya Lawrence og Merlene Ottey frá Jamaicu komu næstar í hlaupinu.