Örn Arnarson bætti aftur Íslands- og Norðurlandamet sitt í 50 metra baksundi í undanúrslitum á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug sem fer fram í Ungverjalandi.
Örn synti í fyrri undanúrslitariðlinum og á þriðju braut. Hann var fyrstur út úr snúningnum en gaf eftir á síðari sprettinum og synti á 24,07 sekúndum sem dugði honum í þriðja sætið í riðlinum. Þar með bætti hann metið sitt frá því í morgun um 0,23 sekúndur.
Örn náði samtals fimmta besta tímanum og er því öruggur í úrslitin í sundinu sem fara fram síðar í dag. Hann mun synda á 2. braut í úrslitasundinu.
Sýnt verður beint frá úrslitasundinu á Eurosport sem mun hefjast um klukkan 17.00 að íslenskum tíma.
Efstu átta menn í undanúrslitunum:
1. Helge Meeuw, Þýskalandi - 23,77 sek.
2. Thomas Rupprath, Þýskalandi - 23,80
3. Aschwin Wildboer Faber, Spáni - 23,82
4. Stanislav Donets, Rússlandi - 23,83
5. Örn Arnarson, Íslandi - 24,07
6. Lubos Krizko, Slóvakíu - 24,18
-. Guy Barnea, Ísrael - 24,18
8. Flori Lang, Sviss - 24,41