Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic var hetja Inter Milan í kvöld þegar liðið lagði Palermo 2-0 á útivelli.
Zlatan skoraði bæði mörk liðsins sem voru af dýrari gerðinni, en að annars þóttu meistararnir ekki sérlega sannfærandi á Sikiley í kvöld.
Inter er á toppi ítölsku A-deildarinnar með 27 stig og Juventus er í öðru sæti með 24 stig. Liðin mætast í deildinni um næstu helgi.
AC Milan og Napoli hafa 23 stig í 3.-4. sæti. Milan tekur á móti Chievo á morgun og Napoli sækir Atalanta heim.
Lazio er í fimmta sæti með 22 stig og mætir grönnum sínum og erkifjendum í Roma annað kvöld, en Roma hefur gengið afar illa í vetur og situr liðið í 17. sæti - einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.