Handbolti

Þjóðverjar í miklu basli með Suður-Kóreu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dirk Nowitzky körfuboltakappi fagnar marki hjá löndum sínum í morgun.
Dirk Nowitzky körfuboltakappi fagnar marki hjá löndum sínum í morgun. Nordic Photos / AFP

Heimsmeistarar Þýskalands unnu í morgun fjögurra marka sigur á Suður-Kóreu, í B-riðli handboltakeppninnar á Ólympíuleikunum í Peking.

Ísland leikur einnig í B-riðli og mætir Þýskalandi í næsta leik. Sigur Þjóðverja var þó alls ekki jafn öruggur og tölurnar gefa til kynna en Suður-Kórea hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 13-10.

Þjóðverjar náðu að jafna metin í stöðunni 17-17 þegar tæpar 20 mínútur voru eftir af leiknum og var leikurinn í járnum næstu tíu mínúturnar. Þá tóku heimsmeistararnir til sinna ráða og kláruðu leikinn undir lokin með því að skora átta mörk gegn fjórum.

Michael Kraus var markahæstur Þjóðverja með sjö mörk og þeir Pascal Hens, Holger Glandorf og Florian Kehrmann komu næstur með fjögur mörk hver.

Chihyo Cho var markahæstur hjá Suður-Kóreu með sjö mörk og Yikyeong Jeong kom næstur með fjögur.

Þá vann Frakkland sigur á Brasilíu í A-riðli, 34-26. Olivier Girault skoraði sjö mörk og þeir Jerome Fernandez og Nikola Karabatic fimm hver.

Þessa stundina eigast við Pólland og Kína í A-riðli og lokaleikur dagsins er viðureign Dana og Egypta sem er í riðli Íslands - B-riðli.

Úrslit dagsins:

A-riðill:

Króatía - Spánn 31-29

Frakkland - Brasilía 34-26

B-riðill:

Ísland - Rússland 33-31

Þýskaland - Suður-Kórea 27-23






Fleiri fréttir

Sjá meira


×