Arnór Smárason kom inn sem varamaður á 82. mínútu í kvöld en þetta var hans fyrsti A-landsleikur. Arnór er Skagamaður en samningsbundinn Heerenveen í Hollandi.
„Við vorum óheppnir. Við vorum betri aðilinn í þessum leik og spiluðum fínan bolta en fengum klaufalegt mark á okkur í lok fyrri hálfleiks. Við áttum ekki að tapa þessum leik," sagði Arnór.
Athygli vakti að Arnór sýndi Craig Bellamy enga miskunn í kvöld og kvartaði Bellamy sáran undan Arnóri við dómara leiksins. „Þegar maður kemur svona inn í fyrsta leikinn sinn vill maður sýna sig. Ég vildi bara sýna að maður er enginn kjúklingur."