Árni Freyr Guðnason verður mjög líklega áfram í herbúðum ÍR en hann var lánaður til Breiðhyltinga frá FH nú í sumar.
Samningur Árna við FH rennur út nú um áramótin og sagði hann í samtali við Vísi að langlíklegast væri að hann yrði áfram hjá ÍR.
„ÍR-ingar vilja halda mér og ég sjálfur vill vera áfram hjá ÍR. En ég myndi samt skoða alla möguleika sem kæmu upp á borðið hjá mér," sagði hann.
ÍR vann 2. deildina nú í sumar með miklum yfirburðum og fengu alls 57 stig í leikjunum 22, sautján meira en Afturelding sem varð í öðru sæti. Árni varð þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með sautján mörk í nítján leikjum.