Handbolti

Guðmundur: Óþægilegt að byrja á Argentínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarmaður hans.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarmaður hans.

Íslenska landsliðið í handbolta stendur í ströngu um helgina en þá fer fram undankeppni fyrir Ólympíuleikana í Peking í sumar.

Riðill Íslands í undankeppninni fer fram í Póllandi en ásamt gestgjöfunum er Ísland með Svíþjóð og Argentínu í riðli. Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram á Ólympíuleikana.

„Við komum hingað til Póllands í dag eftir að hafa æft í Magdeburg í Þýskalandi undanfarna daga og hefur þetta allt gengið bærilega. Það eru engin frekari meiðsli á leikmönnum sem er vissulega ánægjulegt," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, í samtali við Vísi.

Hann segir að það sé vissulega ágætt að geta byrjað á því að fylgjast með Svíum og Pólverjum mætast á fyrsta keppnisdegi. En að sama skapi gæti það verið hættulegt að byrja á Argentínu.

„Við vitum ekki mikið um Argentínu. Það eina sem við erum með um þá eru leikir þeirra á HM í Þýskalandi í fyrra. Það er frekar óþægilegt en við vitum mun meira um lið Póllands og Svíþjóðar."

„Það verður því mjög mikilvægt að fara af fullum krafti í leikinn á morgun. Argentína hefur oft verið að stríða sterkari liðum, til að mynda tók það Pólverja 40 mínútur að hrista þá af sér á HM í Þýskalandi."

Hann vill þó lítið segja um möguleika Íslands gegn Svíum og Pólverjum en fyrirfram er talið að þessi þrjú lið munu keppast um efstu tvö sætin í riðlinum.

„Þetta er einfaldlega hörkuverkefni og ég get ekkert dæmt um okkar möguleika. Til að þetta takist okkur þarf mjög margt að ganga upp, það er bara þannig."

„Ég á mér engin óskaúrslit í leik Póllands og Svíþjóðar á morgun. Við munum fyrst og fremst einbeita okkur að okkar leikjum og við viljum byrja á sigri gegn Argentínu á morgun. Hitt verður svo að fá að koma í ljós."

Leikirnir þrír verða allir leiknir um helgina. Fyrst gegn Argentínu á morgun, þá gegn heimamönnum á laugardaginn og loks gegn Svíum á sunnudaginn.

„Við fáum að tilkynna aðeins fjórtán leikmenn til leiks á morgun og fáum ekki að skipta út nema einum leikmanni og þá aðeins ef hann er meiddur. Það þarf því að keyra liðið áfram á fjórtán leikmönnum og má því mjög lítið út af bera. Þetta eru óneitanlega mjög sérstakar reglur."

Guðmundur segir að hann hafi fyrst og fremst áhyggjur af varnarleiknum. „Við erum ekki með Sverri Jakobsson sem hefur verið mikilvægur hlekkur í okkar varnarleik. En sóknarleikurinn gegn mjög vel í æfingaleikjunum gegn Spáni um síðustu helgi en hann kemur heldur ekki af sjálfu sér. Við erum að fara að mæta liðum sem spila mjög sterkan varnarleik."

Rúv verður með beinar útsendingar frá leikjunum þremur. Dagskráin er svohljóðandi:

Föstudagur kl. 15.45: Ísland - Argentína

Laugardagur kl. 18.00: Ísland - Pólland

Sunnudagur kl. 16.00: Ísland - Svíþjóð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×