Handbolti

Axel, Ingimundur og Sigurður Ari norskir meistarar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ari Stefánsson skoraði átta mörk í dag.
Sigurður Ari Stefánsson skoraði átta mörk í dag. Mynd/Vilhelm

Elverum varð í dag norskur meistari í handbolta eftir afar óvæntan sigur á deildar- og bikarmeisturum Drammen í úrslitaleik um meistaratitilinn í dag.

Elverum vann tveggja marka sigur, 33-31, og leiddi með sama mun í hálfleik, 16-14. Íslendingarnir í liðinu áttu stórleik en Sigurður Ari Stefánsson skoraði átta mörk í leiknum og Ingimundur Ingimundarson sjö.

Markahæstur í liði Elverum var Steffen Stormo Stegavik með tíu mörk en hann hefur reyndar þegar samið um að leika með Drammen á næstu leiktíð.

Elverum skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins og lét forystuna aldrei af hendi. Mest varð forystan í fyrri hálfleik fimm mörk en Drammen náði að jafna stöðuna, 24-24, þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka.

Sigurður Ari innsiglaði svo sigurinn með marki þegar sautján sekúndur voru til leikskloka og gríðarlegur fögnuður braust út í leikslok.

Axel Stefánsson er þjálfari Elverum og greinilegt að hann hefur unnið þrekvirki með Elverum sem varð í fimmta sæti deildarkeppninnar og þótti því fyrirfram ólíklegt til að vinna sigur í úrslitakeppninni.

Axel var þó látinn fara um miðja leiktíð og því ljóst að í dag var hans síðasti leikur með liðið. Hann hefur þjálfað Elverum í tvö ár. 

Samúel Ívar Árnason lék einnig með liðinu í vetur en hætti þegar hann flutti til Oslóar.

Elverum drógst gegn Runar sem varð í öðru sæti deildarinnar í fjórðungsúrslitum og vann þá leiki, 33-28 og 35-30. Í undanúrslitum lagði liðið Haugaland, 27-24, sem varð í áttunda sæti deildarinnar.

Gömlu handboltakempurnar Glenn Solberg og Frode Hagen léku sinn síðasta leik á ferlinum í dag en þeir hefðu sjálfsagt viljað ljúka ferlinum á betri nótum. Hagen var markahæstur leikmanna Drammen með tíu mörk en Solberg skoraði fimm.

Vísir óskar þeim Ingimundi, Sigurði Ara og Axel innilega til hamingju með þennan stórkostlega árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×