Sævar Ciesielski, sem fékk þyngsta dóminn í Geirfinnsmálinu svokallaða, segir að sér sárni ummæli Samúels Arnar Erlingssonar, þingmanns Framsóknarflokksins féllu á þingi í gær. Þar var Samúel að vekja athygli á máli Birgis Marteinssonar, sem sat í einangrun í Færeyjum í 170 daga í tengslum við Pólstjörnumálið.
Samúel sagði að þess væru engin dæmi að menn væru hafðir svo lengi í einangrun hér á landi og benti á að í Geirfinnsmálinu hafi menn lengst verið í 100 daga. Þetta er ekki allskostar rétt og bendir Sævar á að hann hafi verið í rúm tvö ár í einangrun, eða 106 vikur. Þegar dómur féll í máli hans hafði hann setið í gæsluvarðhaldi í heil fimm ár.
„Mér fannst særandi að hlusta á þetta," segir Sævar í samtali við Vísi. „Ég var í tvö ár í gluggalausum klefa og meira að segja hlekkjaður. Í heilt ár fékk ég ekki að fara út undir bert loft. Mér finnst slæmt að þingmenn hafi ekki meira vit á sögunni en þetta," segir Sævar. Hann segist vera staddur hér á landi í tengslum við Breiðavíkurmálið en undanfarið hefur hann dvalist í Kaupmannahöfn.
„Ég hef það gott þar. Ég lenti inn á spítala og þar vildu menn allt fyrir mann gera, ólíkt því sem maður á að venjast hér á landi." Spítalavistin kom til af því að Sævar féll niður stiga og brákaði á sér lærlegginn. Hann fékk síðan blóðeitrun af þeim völdum og þurfti að dvelja um tíma á sjúkrahúsi.
