Fótbolti

Þjálfari Norðmanna segir af sér

Åge Hareide hefur átt afleitt ár
Åge Hareide hefur átt afleitt ár NordicPhotos/GettyImages

Åge Hareide, landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu, hefur sagt starfi sínu lausu. Undir stjórn Hareide vann norska liðið ekki leik á árinu 2008 og er í neðsta sæti riðils okkar Íslendinga með aðeins tvö stig eftir þrjá leiki.

Norska knattspyrnusambandið segist ætla að taka sér tíma í að finna eftirmann Hareide, en næsti leikur norska liðsins er vináttuleikur við Þjóðverja í febrúar á næsta ári.

Fjölmiðlar í Noregi hafa lengi heimtað höfuð landsliðsþjálfarans, ekki síst eftir 2-2 jafntefli liðsins við íslenska liðið í Osló í haust.

Í kjölfarið fylgdi markalaust jafntefli við Skota á útivelli og síðasti leikur liðsins í undankeppni HM undir stjórn Hareide var svo 1-0 tap heima fyrir Hollendingum.

"Åge verður að víkja," sagði á íþróttasíðu Aftonbladet eftir tapið gegn Hollendingum.

Norska liðið hafði á þeim tímapunkti ekki unnið sigur í sjö leikjum í röð og hefur ekki byrjað landsleikjaár jafn illa í þrjá áratugi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×