Spænska dagblaðið Diario Sport segir að ensku úrvalsdeildarfélögin West Ham og Portsmouth séu reiðubúin að greiða fimm milljónir punda fyrir Eið Smára Guðjohnsen, leikmann Barcelona.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Eiður Smári er orðaður við þessi félög en Harry Redknapp hefur lýst yfir áhuga sínum að fá hann til félagsins. Portsmouth var einnig á eftir Peter Crouch, leikmanni Liverpool, en tilboði félagsins var hafnað. Því þykir líklegt að Redknapp muni næst snúa sér að Eiði Smára.
Blaðið segir einnig að Eiður Smári sé ekki í framtíðaráætlunum Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Barcelona.