„Ég held að hann muni fara frá Barcelona og hann heldur möguleikunum opnum," segir Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára, í viðtali við vefsíðu Sky.
„Það eru nokkur félög sem hafa áhuga á honum en ekkert er komið á neitt alvarlegt stig sem stendur," sagði Arnór. Eiður hefur verið orðaður við Aston Villa en Arnór segir það mjög ólíklegan kost.
„Ég held að ef Eiður snúi aftur til Englands þá færi hann frekar til London eða Manchester heldur en til Birmingham," sagði Arnór.
Auk Villa er talið að Manchester City, West Ham og Portsmouth hafi áhuga á að fá Eið í sínar raðir.