Körfubolti

Sigurður: Ánægður með varnarleikinn

Sigurður Ingimundarson
Sigurður Ingimundarson
"Ég er rosalega kátur með þetta," sagði Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari þegar Vísir náði tali af honum eftir 77-71 sigur Íslendinga á Dönum í Evrópukeppninni í kvöld.

"Ég er mjög ánægður að vinna sigur í fyrsta leik. Ég hefði viljað vinna stærra, en það er fínt að fá sigur. Ég held við höfum leyst þetta sómasamlega þó við höfum ekki spilað neitt sérstakan leik sóknarlega," sagði Sigurður, sem var ánægðari með varnarleikinn.

"Strákarnir spiluðu mjög góða liðsvörn og hjálpuðu vel og við vorum að taka það frá Dönunum sem þeir gera vel," sagði Sigurður og sagðist ánægður með hve fast íslensku leikmennirnir hefðu tekið á Dönunum.

Næsti leikur íslenska liðsins er útileikur við Hollendinga á laugardaginn og þar stefnir Sigurður á að ná í mikilvægan útisigur.

"Stefnan verður sett á sigur í Hollandi og þar erum við að mæta liði sem er ekkert ósvipað því danska. Þar munum við þó væntanlega spila meiri svæðisvörn. Þar eru líklega hávaxnari leikmenn en í danska liðinu en þeir eru reyndar ekki með mjög margar góðar skyttur. Svo eigum við Svartfellingana hérna heima á miðvikudaginn í næstu viku og þar vona ég að mæti enn fleiri áhorfendur en í kvöld. Við ætlum ekkert að leggjast niður fyrir því liði þó það eigi að teljast sterkasta liðið í riðlinum," sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×