Handbolti

Ísland á Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreiðar Guðmundsson átti besta leik sinn á ferlinum í dag og kom Íslandi á Ólympíuleikana.
Hreiðar Guðmundsson átti besta leik sinn á ferlinum í dag og kom Íslandi á Ólympíuleikana. Nordic Photos / AFP

Ísland vann í dag Svíþjóð, 29-25, og tryggði sér þar með þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking í sumar.

Hreiðar Guðmundsson átti sannkallaðan stórleik og kom fyrst og fremst í veg fyrir það að Svíar kæmust nálægt því að jafna leikinn á síðustu tíu mínútum leiksins. Alls varði hann átján skot, þar af tvö víti.

Forystan var fimm mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka og Svíar fengu vissulega tækifæri til að gera atlögu að því að tryggja jafnteflið sem hefði dugað Svíum til að komast á Ólympíuleikana. En allt kom fyrir ekki, sem betur fer, fyrst og fremst vegna góðs varnarleiks og ótrúlegrar frammistöðu Hreiðars.

Svíar voru með undirtökin í fyrri hálfleik en náðu aldrei að hrista Íslendingana almennilega af sér. Mest varð forysta Svía tvö mörk, 5-3, en vendipunktur leiksins var þegar Svíar fengu sína fyrsta brottvísun. Oscar Carlen var dæmdur brotlegur gegn Ólafi og Snorri Steinn skoraði úr vítinu og jafnaði í 10-10.

Íslendingar nýttu sér yfirtöluna vel og komust í 12-10. En þó svo að Svíar hefðu náð að jafna metin fyrir hálfleik, 13-13, var ljóst að Íslendingarnir voru búnir að ná undirtökunum í leiknum.

Ísland byrjaði vel í síðari hálfleik og komst í þriggja marka forystu, 18-15, eftir aðeins sex mínútur. Um miðbik hálfleiksins fóru dómararnir að láta til sín taka og ráku menn út af ótt og títt og fengu Svíarnir tækifæri til að spila sig aftur inn í leikinn. Þeir náðu þó ekki að minnka muninn nema í tvö mörk og Ísland greip tækifærið og náði fimm marka forystu þegar tíu mínútur voru eftir.

Varnarleikurinn var stórkostlegur í dag og ekki skemmdi fyrir að Hreiðar varði oft úr dauðafærum Svía. Reyndar voru yfirburðir íslenska liðsins það miklir að það var ótrúlegt að Ísland væri ekki með miklu meira forskot í leiknum. En Svíarnir sýndu að þó þeir eigi slæman dag eru þeir seigir og má aldrei afskrifa þá.

Lokaatlaga þeirra rann út í sandinn þegar Hreiðar varði frá þeim hvað eftir annað.

Sóknarleikurinn var fínn en mestu máli skipti að níu leikmenn íslenska liðsins komust á blað í dag. Ólafur Stefánsson átti stórkostlegan leik en aðrir leikmenn stigu upp þegar þurfti og skiluðu sínu. Guðjón Valur var frábær í síðari hálfleik og Sigfús Sigurðsson átti sinn lang, langbesta landsleik í langan tíma. Hann var frábær.

Ekki má gleyma hlut Birkis Ívars Guðmundssonar. Hann reyndi að verja þrjú vítaskot og varði eitt þeirra sem er alltaf gríðarlega dýrmætt.

Vísir var með beina lýsingu frá leiknum sem má lesa hér að neðan.

Tölfræði leiksins:

Mörk Íslands:

Ólafur Stefánsson 6 (10)

Guðjón Valur Sigurðsson 5 (8)

Arnór Atlason 4 (8)

Róbert Gunnarsson 3 (4)

Alexander Petersson 3 (6)

Snorri Steinn Guðjónsson 3/1 (7/2)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 (2)

Sigfús Sigurðsson 2 (4)

Vignir Svavarsson 1 (1)

Varin skot:

Hreiðar Guðmundsson 18/2 (40/4, 47%)

Birkir Ívar Guðmundsson 1/1 (3/3, 33%)

Skotnýting: Skorað úr 29 af 50 skotum (58%)

Vítanýting: Skorað úr 1 af 2 vítum.

Fiskuð víti: Ólafur 1 og Róbert 1.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 8 (Alexander 3, Arnór 2, Ólafur 1, Sigfús 1 og Vignir 1.).

Utan vallar: 12 mínútur.

Markahæstir hjá Svíþjóð:

Jan Lennartsson 7/2 (13/3)

Robert Arrhenius 5 (7)

Martin Boquist 5 (10)

Jonas Källman 4 (6)

Jonas Larholm 2/2 (4/3)

Tveir leikmenn með eitt mark og þrír sem skutu en náðu ekki að skora.

Varin skot:

Tomas Svensson 7 (20/1, 35%, lék í fyrri hálfleik)

Peter Gentzel 4 (20, 20%, lék í síðari hálfleik)

Skotnýting: Skorað úr 25 af 50 skotum (50%)

Vítanýting: Skorað úr 4 af 7 vítum.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 5.

Utan vallar: 8 mínútur

Bein lýsing:

17.44 Ísland - Svíþjóð 29-25 lokatölur

Leikurinn er búinn!!!!!!!!!! Ísland fer til Peking!!!!!!

17.40 Ísland - Svíþjóð 28-24

Það á að sæma Hreiðar Guðmunsson riddarakrossinum. Átjan boltar varðir, tvö vítaköst og samtals 46 prósent þeirra skota sem hafa komið á hann. Frábær varnarleikur hjá íslenska liðinu og góð breidd í sókninni. Loksins, loksins, loksins er íslenska liðið að spila eins og þeir geta. Svíar hafa verið hreint skelfilegir.

17.37 Ísland - Svíþjóð 27-23

Hreiðar Guðmundsson er að koma íslenska landsliðinu á Ólympíuleikana. Það er bara þannig. Fjögur mörk og fjórar mínútur eftir.

17.32 Ísland - Svíþjóð 25-21

Fjögur mörk og átta mínútur eftir. Ísland í sókn. Ekki gleyma að jafntefli dugir Svíunum.

17.29 Ísland - Svíþjóð 25-20

Fjögur mörk í forystu og tæpar tíu mínútu eftir. Þetta er svakalega spennandi og alls ekki komið í höfn enda má maður aldrei afskrifa Svíana. Þessi leikur hefur verið ótrúlega spennandi og þessar síðustu mínútur verða alveg óskaplega erfiðar.

17.24 Ísland - Svíþjóð 21-19

Nú fengu Svíar tækifæri til að spila sig aftur inn í leikinn, voru tveimur fleiri í langan tíma en náðu bara að minnka muninn í tvö mörk. Nú þurfa okkar menn að ná upp gamla góða spilinu aftur.

17.15 Ísland - Svíþjóð 21-17

Svíarnir eru að spila ömurlega í síðari hálfleik og Íslendingar verða einfaldlega að fara að stinga af. Þeir mega ekki leyfa Svíum að hanga inn í leiknum.

17.10 Ísland - Svíþjóð 18-16

Ísland náði ekki að nýta sér yfirtöluna eins vel og í fyrsta skiptið. Í þetta sinn fór sá tveggja mínútna leikkafli 1-1. Ísland gat komist í þriggja marka forystu en nú sækja Svíar og geta minnkað muninn aftur í eitt mark.

17.05 Ísland - Svíþjóð 16-14

Svíar eru ekki að nýta sér yfirtöluna sem er afar jákvætt fyrir Ísland. Ísland heldur forystunni þó svo að hafa misst mann út af eftir góða byrjun í seinni hálfleik.

17.02 Ísland - Svíþjóð 13-13

Síðari hálfleikur er hafinn og byrja Svíar með boltann. Peter Gentzel er kominn í markið hjá Svíum.

16.51 Ísland - Svíþjóð 13-13

Staðan jöfn í hálfleik eftir að Svíar skoruðu úr vítakasti á lokasekúndum hálfleiksins. Það gæti reynst þeim dýrmætt en hugarfarið hjá íslensku strákunum hefur verið mjög gott. Ólafur hefur verið frábær en við eigum talsvert inni hjá Snorra Steini og Guðjóni Val.

Mörk Íslands:

Ólafur Stefánsson 3 (6)

Róbert Gunnarsson 2 (3)

Alexander Petersson 2 (4)

Arnór Atlason 2 (6)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 1 (1)

Guðjón Valur Sigurðsson 1 (1)

Sigfús Sigurðsson 1 (2)

Snorri Steinn Guðjónsson 1/1 (4/2)

Varin skot: Hreiðar Guðmundsson 8/1 (22/2, 48%)

16.49 Ísland - Svíþjóð 13-12

Svíar láta ekki slá sig út af laginu en Ísland er betri aðilinn þessa stundina. Varnarleikurinn hefur verið mjög góður og lykillinn að góðu gengi íslenska liðsins í dag.

16.42 Ísland - Svíþjóð 12-10

Svíar taka leikhlé eftir að Ísland skoraði þrjú mörk í röð, öll í yfirtölu sem eru frábærar fréttir. Hreiðar Guðmundsson hefur farið á kostum og varið fleiri skot en Svensson (7-6). Ólafur Stefánsson er kominn með þrjú dýrmæt og glæsileg mörk. Þetta lítur vel út.

16.36 Ísland - Svíþjóð 7-8

Tomas Svensson hefur varið tvö dauðafæri í röð af línunni. Það er afar dýrt því að öðru leyti er íslenska liðið að standa sig vel.

16.30 Ísland - Svíþjóð 6-7

Ísland komst yfir í fyrsta sinn í leiknum með þrumufleyg Arnórs Atlasonar en Svíar hafa endurheimt forystuna aftur.

16.29 Ísland - Svíþjóð 5-5

Hreiðar varði sitt fyrsta víti gegn Henrik Lundström og Róbert Gunnarsson hefur jafnað leikinn með tveimur mörkum í röð af línunni.

16.25 Ísland - Svíþjóð 3-4

Ísland spilar sína alþekktu 5-1 vörn með Guðjón Val fremstan í svokallaðri "indíánastöðu". Vörnin er að standa sænsku sóknina ágætlega af sér en sænska vörnin er líka gríðarlega sterk.

Tomas Svensson hefur varið fjögur skot og er byrjaður að taka íslensku leikmennina á taugum. Alexander átti glórulaust skot úr horninu.

16.19 Ísland - Svíþjóð 2-2

Sigfús Sigurðsson skoraði fyrsta mark leiksins úr hraðaupphlaupi en þetta var hans fyrsta mark í Póllandi. Ísland gat komist í 2-0 en Svíar spila sterka vörn og komust í 2-1 með tveimur hraðaupphlaupsmörkum. En Ísland svaraði með fjórða hraðaupphlaupsmarki leiksins. 2-2.

16.16 Ísland - Svíþjóð 0-0

Leikurinn er hafinn í Póllandi. Íslenska liðið byrjar með boltann eins og í hinum leikjunum tveimur. Hreiðar Guðmundsson stendur vaktina í íslenska markinu en hann átti frábæran leik gegn Pólverjum í gær. Tomas Svensson er í marki Svía og vonandi á hann slæman dag.

16.14

Dómaraparið heitir Bord og Buy og er frá Frakklandi. Það þykir eitt besta dómaraparið í heiminum í dag.

16.13

Íslensku landsliðsmennirnir stóðu þétt saman þegar íslenski þjóðsöngurinn var leikinn og tóku vel undir. Sænsku leikmennirnir muldruðu sinn þjóðsöng. Vonandi veit þetta á gott.

16.11

Það er ekki jafn þétt setið í höllinni í Wraklow í Póllandi sem er skiljanlegt þar sem heimamenn eru ekki að spila. Það eru nokkrir Svíar á pöllunum sem og fáeinir Íslendingar. Nú eru þjóðsöngvar landanna að hefjast.

16.06

Tíu mínútur í leik og spennan stigmagnast. Allir vita hvað er undir en þessi leikur er sá síðasti sem einhverju máli skiptir varðandi sæti á Ólympíuleikunum. Ellefu þjóðir eru komnar til Peking og það verður annað hvort Ísland eða Svíþjóð sem tekur tólfta og síðasta sætið sem í boði er.

15.55



Nú fer að styttast í leik Íslands og Svíþjóðar þar sem það er einfaldlega að duga eða drepast. Bæði lið þurfa sigur til að komast á Ólympíuleikana en Svíar búa við það forskot að þeim dugir jafnteflið.

Riðill Íslands fer fram í Póllandi en heimamenn tryggði sér í gær sæti á Ólympíuleikunum með því að vinna Ísland, 34-28.

Á föstudaginn gerðu Pólland og Svíþjóð jafntefli og þess vegna dugar Svíum jafnteflið í dag.

Leikmannahópur Íslands:

Markverðir:

Hreiðar Guðmundsson, Sävehof

Birkir Ívar Guðmundsson, Lübbecke

Aðrir leikmenn:

Alexander Petersson, Flensburg

Arnór Atlason, FC Köbenhavn

Ásgeir Örn Hallgrímsson, GOG

Einar Hólmgeirsson, Flensburg

Guðjón Valur Sigurðsson, Gummersbach

Ingimundur Ingimundarson, Elverum

Ólafur Stefánsson, Ciudad Real

Róbert Gunnarsson, Gummersbach

Sigfús Sigurðsson, Ademar Leon

Snorri Steinn Guðjónsson, GOG

Sturla Ásgeirsson, Århus GF

Vignir Svavarsson, Skjern

Leikmannahópur Svíþjóðar:

Markverðir:

Tomas Svensson

Peter Gentzel

Aðrir leikmenn:

Martin Boquist

Mattias Gustafsson

Henrik Lundström

Kim Andersson

Jonas Källman

Magnus Jernemyr

Jan Lennartsson

Fredrik Lindahl

Dalibor Doder

Robert Arrhenius

Jonas Larholm

Peter Gentzel

Oscar Carlen




Fleiri fréttir

Sjá meira


×