Ítalska knattspyrnusambandið hefur enn ekki tekið ákvörðun um framtíð Roberto Donadoni landsliðsþjálfara. Talið var að Donadoni yrði látinn taka pokann sinn ef ítalska liðið næði ekki að komast í undanúrslit EM.
Óheppnin spilaði þó sína rullu í því að liðið tapaði fyrir Spáni og horfir ítalska sambandið til þess. Giancarlo Abete, forseti knattspyrnusambands Ítalíu, ætlar að setjast niður með Donadoni og ræða frammistöðu Ítalíu á mótinu.
Donadoni tók við af Marcello Lippi sem hætti eftir að Ítalía varð heimsmeistari 2006. Ítalskir fjölmiðlar kalla eftir því að Lippi snúi aftur í þjálfarastólinn og telja það líklegan möguleika.