Brasilíski framherjinn Ronaldo hjá AC Milan sleit liðband í hné aðeins þremur mínútum eftir að hann kom inn sem varamaður í leik gegn Livorno í gærkvöldi og spilar ekki meira með liðinu á leiktíðinni.
Þetta eru sömu meiðsli og héldu honum frá keppni í meira og minna þrjú ár um aldamótin og hafa menn leitt líkum að því að ferill hins 31 árs gamla markahróks gæti verið á enda.
Ronaldo hefur lítið komið við sögu hjá Milan í vetur vegna smámeiðsla en samningur hans rennur út í sumar.
Ronaldo er markahæsti leikmaður í sögu HM og hefur skorað 15 mörk í þremur heimsmeistarakeppnum fyrir Brasilíu.