Örn Arnarson vann sér í dag sæti í úrslitasundinu í 50 metra baksundi á EM í sundi sem fram fer í Hollandi. Hann setti nýtt Norðurlandamet í undanúrslitunum.
Hann bætti tímann sem hann náði í undanrásunum um þrjá hundraðshluta úr sekúndu og synti á 25,86 sekúndum. Það er tveimur hundraðshlutum úr sekúndu betri tími en gamla Norðurlandametið hans sem hann setti í Lúxemborg í lok janúar á þessu ári.
Örn synti á sjöttu braut í öðrum undanúrslitariðlinum og kom á fjórða besta tímanum í mark í sínum riðli. Alls varð hann í sjöunda sæti en efstu átta keppendurnir keppa í úrslitasundinu.
Úrslitasundið fer fram annað kvöld.