Nýliðar Hoffenheim töpuðu í dag fyrir Herthu Berlín, 1-0, í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og mistókst þar með að ná þriggja stiga forskoti á toppi deildarinnar.
Um leið féll liðið af toppi deildarinnar en Hoffenheim er nú með lakara markahlutfall en Leverkusen. Bæði lið eru með 25 stig. Það var Andriy Voronin, sem er á láni hjá Herthu Berlín frá Liverpool, sem skoraði sigurmark leiksins.
Bayern München styrkti stöðu sína í dag þegar liðið lagði Schalke á útivelli, 2-1, með mörkum Luca Toni og Franck Ribery. Jefferson Farfan skoraði mark Schalke.
Bayern er nú aðeins einu stigi á eftir toppliðunum tveimur en liðið byrjaði heldur illa í deildinni í haust.
Þá gerðu Frankfurt og Stuttgart 2-2 jafntefli í dag en bæði lið eru um miðja deild.