Viðskipti innlent

Stímfjárfestar tapa hundruðum milljóna

Fjárfestarnir sem lögðu út í Stím ævintýrið hafa hver um sig tapað hundruðum milljóna króna. Hlutahafahópur Stíms samanstendur af þremur vestfirskum vinum, föður eins þeirra og þremur fjármálafyrirtækjum.

Jakob Valgeir Flosason, stjórnarmaður Stíms, birti í yfirlýsingu sinni hluthafalista félagsins. Stærsti eigandi félagsins er félag stofnað af gamla Glitni sem á 32,5%.

Gunnar Torfason, kunningi Jakobs Valgeirs og sjávarútvegsfræðingur, athafnamaður og fjárfestir átti 15 prósent. SPV fjárfesting hf, félag í eigu Byrs, átti 10% en einn af stærstu hluthöfum Byrs er Glitnir.

BLÓ ehf á þá 10% hlut í Stím en það félag er að fullu í eigu Óskars Eyjólfssonar. Hann seldi Frumherja í byrjun árs 2007 til félags í eigu Finns Ingólfssonar. Ofjarl á einnig 10% en eigendur þess félags er Jakob Valgeir Flosason og Ástmar Ingvarsson.

Jakob Valgeir er framkvæmdastjóri og stærsti eigandi útgerðarfyrirtækisins Jakobs Valgeirs á Bolungarvík. Ástmar er eigandi bílasölunnar Bílaborgar í Reykjavík. Auk þess eiga Jakob Valgeir og Ástmar 2,5 prósent í Stím hvor.

Viðskiptavinir Saga Capital fjárfestingarbanka eiga 8,75% og Saga Capital á sjálfur á 6,25%. Það félag á einnig tæpt prósent í Byr.

Að síðustu á Flosi Valgeir Jakobsson, faðir Jakobs Valgeirs, 2,5 prósent. Samkvæmt heimildum fréttastofu lögðu þessir fjárfestar fram 5 milljarða í eigið fé í viðskiptum Stíms. Félagið keypti hlutabréf í Glitni og FL Group. Reyndar hefur stærsti hluti bréfanna í FL og Glitni verið seldur en Stím átti 0,66% hlut þegar FL var afskráð og 0,87% hlut í Glitni þegar bankinn var þjóðnýttur. Ljóst er að þeir fjárfestar sem tóku þátt í Stím ævintýrinu hafa tapað hundruðum milljóna hver.

Félagið sem var stofnað af gamla Glitni hefur tapað um 1,6 milljarði, Gunnar Torfason 750 milljónum, SPV, BLÓ og Ofjarl 500 milljónum hvert, viðskiptavinir Saga Capital rúmum 437 milljörðum, Saga Capital rúmum 312, Ástmar og feðgarnir Jakob Valgeir og Flosi Jakob 125 milljónum hver.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×