Borgarstjóri mánaðarins Hallgrímur Helgason skrifar 23. ágúst 2008 08:00 Borgarstjóri ágústmánaðar er Hanna Birna Kristjánsdóttir. Við óskum henni velfarnaðar í starfi sem hún er vel að komin, jafn glæsileg, skelegg og hraðvirk sem hún birtist okkur. Einhverntíma hefði verðskulduð tign hennar þótt til tíðinda en nú er þetta bara dapurleg neðanmálsfrétt eins og gat að líta í blaðinu í gær: „Hanna Birna borgarstjóri", örfrétt neðst á síðu, eins og um væri að ræða nýjan hreppstjóra á Ströndum. Hanna Birna tekur við á ömurlegum tíma. Hún reynir að brosa framan í vélarnar en það glampar á blóð á bakvið. Yfir öxl hennar má sjá þrjá borgarstjóra liggja í valnum. Þann fyrsta felldi hún óvart, þann næsta felldi hún með þögninni en þann þriðja tók hún sjálf af lífi. Enda hafði stálkonan þá lært vel til verka og auk þess eignast eigið hnífasett. Fjórði meirihluti kjörtímabilsins, sem alveg má kalla Leið 4 Vonarstræti - Vígaslóð, birtist okkur blóðugur upp að öxlum með beittan hníf í hendi. Hann virkar því sterkur. Hér er einbeitt fólk og grimmt að taka við. Hanna Birna vó Vilhjálm Þ, Dag B og Ólaf F en Óskar Bergsson bakstakk félaga sína í minnihlutanum, fólkið sem hafði gefið honum allan heimsins séns, allt það pólitíska pláss sem hann vildi og meira að segja stól í sjálfu borgarráði að auki: Gjörðu svo vel, Óskar minn. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. En Óskar er smiður og vanur að sjá verk sín rísa. Bitra var hinn bitri sannleikur sinnaskipta framsóknarmannsins. Og sjálfur hefur maður nettan skilning á því. Hugtakið umhverfisvernd hefur líklega hámarkað áhrif sín þegar ekki má lengur bora eftir peningum á Hellisheiði, þeim yndisfagra stað. Nú þegar kreppir að og allur heimurinn leitar að umhverfisvænum orkugjöfum má það teljast hugsjónalegur flottræfilsháttur að ætla sér að sitja á gullinu græna og neita sér um nýtingu þess bara vegna þess að stöðvarhúsin eru ekki nógu flott og leiðslurnar ljótar. Því verður vart neitað að tækifæri okkar sem þjóðar hljóta að liggja í nýtingu jarðvarmans, hinnar „hreinu olíu". Og við hljótum að geta fundið leið til að gera það í sátt við umhverfið og VG. Við vonum því að Leið 4 láti ekki aðeins blóðverkin tala og beiti hnífum sínum á annað en kollegana í borgarstjórn. En þó mætti nýi borgarstjórinn byrja á því að að skera niður í eigin ranni. Enn á ný sest Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í virðulegan stól á vegum borgarbúa. Eftir að hafa opinberað stórfellt vanhæfi á stóli borgarstjóra og staðið fyrir ómerkilegasta skollaleik í stjórnmálasögu seinni tíma, leik sem nú hefur opinberast kjósendum svo við blasir að höfundar hans stálu hálfu ári úr lífi heillar borgar til þess eins að tryggja eigin rassi mýkri sessu, hefur nú bæst á tossablað hans boðsferð í laxveiði á vegum Baugs, mánuði áður en Orkuveitan gekk til sængur með einkarisanum. Út með manninn og það strax. Og út með hina líka. Ekki bara ráðherrann sem flaut með í för, (í Svíþjóð og Noregi væri Gulli Þór að segja af sér núna) heldur líka Kjartan Magnússon, höfuðpaurinn í janúarplottinu mikla. Hvernig getur hann setið áfram eftir öll loforðin sem hann gaf Ólafi F? Hvernig getur hann boðið okkur upp á bros sitt eftir að hafa orðið uppvís að því að beita mafíubrögðum á veikan mann, gert honum „tilboð sem hann gat ekki hafnað"? En í staðinn fyrir að hann taki pokann sinn er siðferðismeistarinn settur yfir barnaskóla borgarinnar… Nei. Hanna Birna ætlar ekki að losa okkur við þessa menn. Hún ætlar að dragnast með draugana út kjörtímabilið vegna þess að sjálf er hún samsek og meðsek í flestum þeirra gjörðum. Hún stóð þögul að baki janúarplotturunum kvöldið illa á Kjarvalsstöðum og naut svo góðs af gjörðum þeirra í 200 daga en uppsker nú fyrst almennilega. Og hún skrifaði líka upp á málefnasamninginn við Ólaf F sem gekk gegn öllum stefnumálum flokksins hennar. Enda nú búin að semja nýjan samning sem er viðsnúningur á öllu sem hún samþykkti í janúar. Hversu margar skoðanir getur einn flokkur haft á einu kjörtímabili? Það er sorglegt að sjá öflugan og efnilegan stjórnmálamann komast til valda með slíku brölti. Að þurfa að klofa yfir klaufaskap forvera sinna, kokgleypa allt þeirra rugl og samsinna lygum þeirra, og sitja svo uppi með þrjótana innanborðs, starfa í skugganum af gerðum þeirra út kjörtímabilið og ganga til kosninga með sakbitnar varir. Af öllum þessum sökum verður Hanna Birna alltaf borgarstjóri mánaðarins, því mánuðurinn janúar 2008 mun fylgja henni um ókomin ár. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Mest lesið Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun
Borgarstjóri ágústmánaðar er Hanna Birna Kristjánsdóttir. Við óskum henni velfarnaðar í starfi sem hún er vel að komin, jafn glæsileg, skelegg og hraðvirk sem hún birtist okkur. Einhverntíma hefði verðskulduð tign hennar þótt til tíðinda en nú er þetta bara dapurleg neðanmálsfrétt eins og gat að líta í blaðinu í gær: „Hanna Birna borgarstjóri", örfrétt neðst á síðu, eins og um væri að ræða nýjan hreppstjóra á Ströndum. Hanna Birna tekur við á ömurlegum tíma. Hún reynir að brosa framan í vélarnar en það glampar á blóð á bakvið. Yfir öxl hennar má sjá þrjá borgarstjóra liggja í valnum. Þann fyrsta felldi hún óvart, þann næsta felldi hún með þögninni en þann þriðja tók hún sjálf af lífi. Enda hafði stálkonan þá lært vel til verka og auk þess eignast eigið hnífasett. Fjórði meirihluti kjörtímabilsins, sem alveg má kalla Leið 4 Vonarstræti - Vígaslóð, birtist okkur blóðugur upp að öxlum með beittan hníf í hendi. Hann virkar því sterkur. Hér er einbeitt fólk og grimmt að taka við. Hanna Birna vó Vilhjálm Þ, Dag B og Ólaf F en Óskar Bergsson bakstakk félaga sína í minnihlutanum, fólkið sem hafði gefið honum allan heimsins séns, allt það pólitíska pláss sem hann vildi og meira að segja stól í sjálfu borgarráði að auki: Gjörðu svo vel, Óskar minn. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. En Óskar er smiður og vanur að sjá verk sín rísa. Bitra var hinn bitri sannleikur sinnaskipta framsóknarmannsins. Og sjálfur hefur maður nettan skilning á því. Hugtakið umhverfisvernd hefur líklega hámarkað áhrif sín þegar ekki má lengur bora eftir peningum á Hellisheiði, þeim yndisfagra stað. Nú þegar kreppir að og allur heimurinn leitar að umhverfisvænum orkugjöfum má það teljast hugsjónalegur flottræfilsháttur að ætla sér að sitja á gullinu græna og neita sér um nýtingu þess bara vegna þess að stöðvarhúsin eru ekki nógu flott og leiðslurnar ljótar. Því verður vart neitað að tækifæri okkar sem þjóðar hljóta að liggja í nýtingu jarðvarmans, hinnar „hreinu olíu". Og við hljótum að geta fundið leið til að gera það í sátt við umhverfið og VG. Við vonum því að Leið 4 láti ekki aðeins blóðverkin tala og beiti hnífum sínum á annað en kollegana í borgarstjórn. En þó mætti nýi borgarstjórinn byrja á því að að skera niður í eigin ranni. Enn á ný sest Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í virðulegan stól á vegum borgarbúa. Eftir að hafa opinberað stórfellt vanhæfi á stóli borgarstjóra og staðið fyrir ómerkilegasta skollaleik í stjórnmálasögu seinni tíma, leik sem nú hefur opinberast kjósendum svo við blasir að höfundar hans stálu hálfu ári úr lífi heillar borgar til þess eins að tryggja eigin rassi mýkri sessu, hefur nú bæst á tossablað hans boðsferð í laxveiði á vegum Baugs, mánuði áður en Orkuveitan gekk til sængur með einkarisanum. Út með manninn og það strax. Og út með hina líka. Ekki bara ráðherrann sem flaut með í för, (í Svíþjóð og Noregi væri Gulli Þór að segja af sér núna) heldur líka Kjartan Magnússon, höfuðpaurinn í janúarplottinu mikla. Hvernig getur hann setið áfram eftir öll loforðin sem hann gaf Ólafi F? Hvernig getur hann boðið okkur upp á bros sitt eftir að hafa orðið uppvís að því að beita mafíubrögðum á veikan mann, gert honum „tilboð sem hann gat ekki hafnað"? En í staðinn fyrir að hann taki pokann sinn er siðferðismeistarinn settur yfir barnaskóla borgarinnar… Nei. Hanna Birna ætlar ekki að losa okkur við þessa menn. Hún ætlar að dragnast með draugana út kjörtímabilið vegna þess að sjálf er hún samsek og meðsek í flestum þeirra gjörðum. Hún stóð þögul að baki janúarplotturunum kvöldið illa á Kjarvalsstöðum og naut svo góðs af gjörðum þeirra í 200 daga en uppsker nú fyrst almennilega. Og hún skrifaði líka upp á málefnasamninginn við Ólaf F sem gekk gegn öllum stefnumálum flokksins hennar. Enda nú búin að semja nýjan samning sem er viðsnúningur á öllu sem hún samþykkti í janúar. Hversu margar skoðanir getur einn flokkur haft á einu kjörtímabili? Það er sorglegt að sjá öflugan og efnilegan stjórnmálamann komast til valda með slíku brölti. Að þurfa að klofa yfir klaufaskap forvera sinna, kokgleypa allt þeirra rugl og samsinna lygum þeirra, og sitja svo uppi með þrjótana innanborðs, starfa í skugganum af gerðum þeirra út kjörtímabilið og ganga til kosninga með sakbitnar varir. Af öllum þessum sökum verður Hanna Birna alltaf borgarstjóri mánaðarins, því mánuðurinn janúar 2008 mun fylgja henni um ókomin ár.