Spænska dagblaðið El Mundo Deportivo hélt því fram í gær að Eiður Smári Guðjohnsen væri í sömu stöðu og þeir Ronaldinho, Deco og Samuel Eto'o hjá Barcelona.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Barcelona, sagði nú fyrir skömmu að hinir þrír væru ekki í framtíðaráætlunum hans. Í fréttinni er Eiði Smára bætt í þann hóp.
Það er ætlun félagsins að selja þessa fjóra leikmenn fyrir lok mánaðarins svo félagið geti sýnt myndarlegan hagnað á rekstrarárinu sem líður undir lok um næstu mánaðamót.
Blaðið heldur því einnig fram að ef það gengur ekki upp megi þeir framlengja sumarfríin sín svo þeir eigi það ekki á hættu að meiðast á æfingum.
Ekkert hefur þó heyrst úr herbúðum Eiðs Smára um framtíðaráætlanir hans né heldur neitt staðfest frá Barcelona.
