Viðskipti innlent

Þarf að afskrifa tvo og hálfan milljarð króna vegna Stíms

FS38, félag í eigu Pálma Haraldssonar, lánaði Stím 2,5 milljarða rétt áður en félagið keypti hluti í Glitni og FL Group í nóvember á síðasta ári. Í ársreikningi FS38 er þess getið að verulegur vafi leiki á því að lánið verði endurheimt.

Fons, sem er í helmingseigu Pálma Haraldssonar, var eini hluthafi félagsins FS38. Í ársskýrslu félagsins kemur fram að það lánaði FS37, sem síðar breyttist í Stím, 2,5 milljarða. Eins og fram hefur komið var Stím stofnað að frumkvæði Glitnis og fékk 19,6 milljarða lánaða frá bankanum. Stím keypti, eins og áður hefur komið fram, hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir rétt tæpa 25 milljarða fyrir rúmu ári.

Í upphafi var FS37 einnig í eigu Fons en það breyttist snöggt þar sem fleiri hluthafar lögðu fram hlutafé, alls 2 milljarða og eignuðust þá 100% í félaginu. Nafn félagsins breyttist einnig um sama leiti í Stím ehf.

Lán félags Pálma var víkjandi lán og ekki með neinum veðum. Lánið hefur samkvæmt heimildum fréttastofu verið afskrifað að fullu. Það kemur þó ekki á óvart því að í ársreikningi FS38 fyrir árið 2007 er sagt orðrétt að miðað við eignastöðu FS37 (seinna Stíms) sé verulegur vafi um innheimtanleika kröfunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×