Íslenska kvennalandsliðið tapaði 1-2 á móti Dönum í vináttulandsleik í Staines í Englandi í dag. Danir skoruðu bæði mörkin sín á fyrstu tólf mínútum leiksins en danska landsliðið er nú í sjötta sæti á Styrkleikalista FIFA yfir bestu kvennalandslið heims.
Hólmfríður Magnúsdóttir jafnaði leikinn á 4. mínútu eða aðeins mínútu eftir að Danir komust yfir. Hólmfríður var mjög ógnandi í leiknum og átti meðal annars skot í slánna seinna í leiknum.
Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki íslenska liðsins og var búin að sækja boltann tvisvar í markið á upphafsmínútunum en Þóra Björg Helgadóttir hélt markinu hreinu í síðasta leik á móti Englandi.
Íslenska kvennalandsliðið þarf því að bíða lengur eftir sínum fyrsta sigri á Dönum hjá A-landsliðum kvenna en Danir hafa unnið alls fjóra leikina með markatölunni 11-2.
Lið Íslands á móti Dönum: Guðbjörg Gunnarsdóttir - Erna Björk Sigurðardóttir, Katrín Jónsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir (36., Ásta Árnadóttir) - Dóra María Lárusdóttir (75., Guðný Björk Óðinsdóttir), Edda Garðarsdóttir (68., Þórunn Helga Jónsdóttir), Dóra Stefánsdóttir (53., Katrín Ómarsdóttir), Sara Björk Gunnarsdóttir (68., Rakel Hönnudóttir), Hólmfríður Magnúsdóttir (86., Harpa Þorsteinsdóttir) - Margrét Lára Viðarsdóttir.