Umboðsmaður brasilíska bakvarðarins Maxwell hjá Inter vandar þjálfara félagsins, Jose Mourinho, ekki kveðjurnar og skilur ekkert í því af hverju Mourinho noti ekki leikmanninn.
Maxwell hefur fá tækifæri fengið upp á síðkastið síðan Mourinho ákvað að setja unglinginn Davide Santon í bakvörðinn en guttinn hefur leikið einstaklega vel.
„Vandamál Maxwell er ekki Santon heldur Mourinho," sagði umboðsmaðurinn Mino Raiola.
„Umbjóðandi minn hefur engan áhuga á að virða samning sinn við félagið á meðan Mourinho þjálfar liðið og vill komast í burtu. Mourinho hefur farið afar illa með hann og verið ósanngjarn. Það er ekki Santon að kenna."
Mörg félög eru talin hafa augastað á Maxwell og þar á meðal AC Milan og Barcelona. Þegar er talið að Mourinho muni nota hann sem beitu til þess að næla í Samuel Eto´o frá Barcelona.