Franski varnarmaðurinn Philippe Mexes hjá Roma var fluttur á sjúkrahús í gærkvöld eftir að hafa lent í átökum á næturklúbbi í Róm.
Mexes var í liði Roma sem gerði 2-2 jafntefli við Reggina í gær en fór svo út á lífið með landa sínum Jeremy Menez.
Ítalska fréttastofan ANSA segir að hópur Lazio-stuðningsmanna hafi verið að angra þá félaga og að til átaka hafi komið, en þegar lögregla mætti á svæðið hafi knattspyrnumennirnir ekki viljað leggja fram kæru.
Mexes hlaut minniháttar áverka eftir að hafa slegist við hnefaleikamann eftir því sem fram kom á útvarpsstöðinni Rete Sport. Hann fékk aðhlynningu á spítalanum en fékk stuttu síðar að fara heim.