Handbolti

Guðmundur: Á sér ekki langan aðdraganda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Ágúst Ingvarsson.
Guðmundur Ágúst Ingvarsson. Mynd/E. Stefán
Guðmundur Ágúst Ingvarsson segir í samtali við Vísi að framboð sitt til forseta Alþjóða handknattleikssambandsins eigi sér ekki langan aðdraganda.

„Það var einfaldlega skorað á mig að fara í framboð," sagði Guðmundur en tilkynnt var í dag hverjir væru í framboði til hinna ýmsu embætta IHF á ársþingi sambandsins í byrjun júní næstkomandi.

Guðmundur er einn þriggja sem er í framboði til forseta, hinir eru Hassan Moustafa frá Egyptalandi og Jean Kaiser frá Lúxemborg. Moustafa er ríkjandi forseti og ríkir megn óánægja með störf hans - sérstaklega á meðal Evrópuþjóða.

„Það er einmitt þess vegna sem við erum að þessu. Menn vilja breyta ýmsu hjá sambandinu," sagði Guðmundur.

En hann sagði einnig ljóst að annað hvort hann eða Kaiser þyrfti að hætta við framboð sitt.

„Það er í mínum huga alveg ljóst. Það verður mjög erfitt að ná kjöri og gerum við okkur fulla grein fyrir því."

Moustafa var kjörinn forseti IHF árið 1999 og hefur síðan þá verið haldið í embætti fyrst og fremst með atkvæðum Afríkuríkja og aðildarlanda frá Asíu.


Tengdar fréttir

Guðmundur í framboð til forseta IHF

Guðmundur Ingvarsson, formaður HSÍ, hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta Alþjóðlega handknattleikssambandsins á ársþingi sambandsins sem fer fram dagana 3.-7. júní næstkomandi. Alls verða þrír Íslendingar í framboði til ýmissa embætta á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×