Carlo Ancelotti, þjálfari ítalska liðsins AC Milan, býst við því að framtíð hans hjá AC Milan ráðist þegar hann hitti framkvæmdastjóra félagsins á mánudaginn en þjálfarinn hefur verið orðaður við enska úrvalsdeildarliðið Chelsea á næsta tímabili.
„Ég mun hitta Galliani (framkvæmdastjóri AC Milan) á mánudaginn þegar tímabilið er búið. Ég býst við að ákvörðun liðsins liggi þá fyrir," sagði Ancelotti en AC Milan gæti misst af sæti í Meistaradeildinni tapi liðið fyrir Fiorentina í lokaumferðinni á sunnudaginn.
Ancelotti hefur verið þjálfari AC Milan síðan 2001 en liðið hefur ekki unnið ítölsku deildina síðan árið 2004. Eigandi félagsins, Silvio Berlusconi, hefur gagnrýnt Ancelotti opinberlega í vetur sem þykir ýta undir sögusagnir um að hann væri á leiðinni á Stamford Bridge.