Frakkinn Yoann Gourcuff hjá Bordeaux er efstur á óskalista Jose Mourinho, þjálfara Inter, fyrir jólin en ólíklegt er talið að þessi 23 ára miðjumaður endi í pakkanum hjá Portúgalanum.
Eftir að hafa átt erfitt uppdráttar hjá AC Milan hefur Gourcuff blómstrað undir handleiðslu Laurent Blanc hjá Bordeaux. Hann var til að mynda kosinn besti knattspyrnumaður Frakklands í ár af France Football.
Þar sem Bordeaux er enn með í Meistaradeildinni er ekki búist við því að félagið hafi neinn áhuga á að selja leikmanninn fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar.
Framtíð Gourcuff er líka talin velta á því hvort Laurent Blanc verður áfram hjá félaginu eður ei.