Fótbolti

Barcelona vonast til þess að fá Villa eða Forlan

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Villa og Cesc Fabregas eru báðir orðaðir við Barcelona.
David Villa og Cesc Fabregas eru báðir orðaðir við Barcelona. Nordic photos/AFP

Forsetinn Joan Laporta hjá Barcelona hefur ítrekað að félag ætli að fá til sín nýjan framherja burt séð frá því hvort að Samuel Eto'o verði áfram hjá félaginu eða ekki.

Laporta hefur staðfest að Barcelona sé búið að bjóða í David Villa hjá Valencia og þá sé líklegt að félagið muni einnig bjóða í Diego Forlan hjá Atletico Madrid.

„Við erum búnir að bjóða Eto'o nýjan samning og eigum eftir að heyra frá umboðsmanni hans hvort að hann taki boðinu eða ekki. Óvissa varðandi framtíð Eto'o breytir samt engu um það að við ætlum að fá til okkar annan framherja. Villa og Forlan eru mjög áhugaverðir leikmenn og við sjáum hvað gerist í þeim málum," er haft eftir Laporta í spænskum fjölmiðlum.

Þá eru Barcelona einnig áfram orðaðir við miðjumennina Javier Mascherano hjá Liverpool og Cesc Fabregas hjá Arsenal en fréttir varðandi þá tvo hafa ekki verið áberandi upp á síðkastið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×