Handbolti

Gunnar Berg: Vorum með þá í vasanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Berg Viktorsson.
Gunnar Berg Viktorsson. Mynd/Anton

Gunnar Berg Viktorsson átti stórleik í vörn Haukanna í dag sem unnu átta marka sigur á pólska liðinu Wisla Plock, 29-21, í EHF-bikarkeppninni í dag.

Sigur Haukanna var glæsilegur en gestirnir skoruðu aðeins tíu mörk á fyrstu 45 mínútum leiksins. Munurinn á liðunum varð mestur fjórtán mörk.

„Við fundum strax á fyrstu mínútu að við vorum með þá í vasanum. Sérstaklega var varnarleikurinn okkar sterkur en það virtist einfaldlega allt detta okkar megin," sagði Gunnar Berg.

Haukar töpuðu fyrri leik liðanna í Póllandi með aðeins tveggja marka mun. „Það gaf okkur meðbyr. Auðvitað skipti líka máli að fjórir leikmenn voru fjarverandi vegna meiðsla hjá þeim en það breytir því ekki að við áttum skilið að vinna í dag."

Gunnar segir að það sé honum að þakka að Haukar komust áfram í næstu umferð. „Ekki spurning," sagði hann og hló. „Ég var búinn að lofa því að ef við myndum ekki tapa með meira en fjögurra marka mun úti myndum við vinna hérna heima."

Hann viðurkennir þó að þeir hafi þrátt fyrir allt ekki verið neitt sérstaklega bjartsýnir á að komast áfram í næstu umferð.

„Á pappírnum var þeirra lið mjög sterkt. Þeir eru með fullt af leikmönnum frá Norðurlöndunum og það er mikið af peningum í þessu félagi. Ég var til að mynda bara núna í morgun að ná í klósettpappír hér í Haukaheimilinu til að selja og hjálpa félaginu. Það eru því miklar öfgar í þessu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×