Umboðsmaður Brasilíumannsins Adriano segir það ólíklegt að leikmaðurinn muni brátt snúa aftur til Ítalíu þar sem hann er samningsbundinn Inter. Umboðsmaðurinn, Gilmar Rinaldi, sagði þetta í samtali við Gazzetta dello Sport.
Adriano hefur lengi átt við áfengisvanda og þunglyndi að stríða og tilkynnti á dögunum að hann ætlaði að taka sér frí frá fótbolta.
Hann er 27 ára gamall en sagðist hafa misst löngunina fyrir að spila knattspyrnu.
Marrimo Moratti, forseti Inter, sagði á miðvikudaginn að hann væri að íhuga að rifta samningi Adriano en hann rennur út í lok næstu leiktíðar.
Þá hefur hann verið orðaður við AC Milan en Adriano Galliani, framkvæmdarstjóri félagsins, gerði lítið úr þeim sögusögnum.