Það verða Sampdoria og Lazio sem mætast í úrslitum ítölsku bikarkeppninnar eftir að fyrrnefnda liðið sló út Inter í undanúrslitum í kvöld.
Inter vann þó 1-0 sigur á Sampdoria í síðari viðureign liðanna í undanúrslitunum. En þar sem Sampdoria vann fyrri leikinn á sínum heimavelli, 3-0, komst liðið í úrslitin.
Zlatan Ibrahimovic skoraði sigurmark Inter í kvöld en varnarmaðurinn Marco Materazzi fékk að líta rauða spjaldið á lokamínútu leiksins.
Lazio sló út Juventus í sinni undanúrslitaviðureign með því að vinna báðar viðureignirnar 2-1. Inter og Juventus eru tvö efstu liðin í ítölsku úrvalsdieldinni.
Úrslitaleikurinn fer fram á Ólympíuleikvanginum í Róm í næsta mánuði.