Samkvæmt breskum fjölmiðlum í dag er hnefaleikakappinn Ricky Hatton í viðræðum við Juan Manuel Marquez um bardaga í létt-veltivigt næsta sumar.
Hinn 31 árs gamli Hatton hefur til þessa verið hljóður um mögulega endurkomu í hringinn eftir niðurlægjandi tap gegn Manny Pacquiao síðasta sumar og hefur í millitíðinni einbeitt sér að því að koma ungum hnefaleikamönnum frá heimaborg sinni Manchester á framfæri.
Hinn 36 ára gamli Marquez tapaði aftur á móti gegn Floyd Mayweather Jr. í síðasta bardaga sínum í september síðast liðnum.
Þeir félagar Hatton og Marquez eiga það reyndar sameiginlegt að hafa báðir tapað gegn bæði Mayweather og Pacquiao en Marquez hefur reyndar einnig gert jafntefli gegn Pacquiao.
Talið er að þeir félagar muni mætast á borgarleikvanginum í Manchester, sem er heimavöllur enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester City, en Hatton er einmitt forfallinn aðdáandi félagsins.