Margrét Lára Viðarsdóttir var aftur á skotskónum með íslenska kvennalandsliðinu í sigrinum á Englandi í gær. Þetta var 44. landsliðsmark hennar í 52 leikjum en jafnframt það fyrsta síðan að hún skoraði í sigurleiknum á móti Írlandi 30. október í fyrra.
Margrét Lára var búin að skora 22 mörk í fyrstu 20 leikjunum undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar þegar hún skoraði eitt þriggja marka Íslands í sigrinum mikilvæga á Írum þar af gerði hún 14 mörk í 11 landsleikjum árið 2008.
Margrét Lára hafi hinsvegar ekki náð að skora á árinu 2009 fyrir leikinn í Colchester sem var sjötti landsleikur ársins. Hún var því búin að bíða í 521 mínútu eftir að fagna marki með íslenska kvennalandsliðinu og því er hægt að fullyrða það að markið hennar í gær hafi verið langþráð.