Körfubolti

KR komið í lykilstöðu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það var skrautlegur leikur í DHL-höllinni í kvöld.
Það var skrautlegur leikur í DHL-höllinni í kvöld. Mynd/Daníel

KR-stelpur standa vel að vígi í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Keflavík eftir góðan 15 stiga sigur, 69-54, í Vesturbænum í kvöld. KR leiðir þar með einvígið 2-0 og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í úrslitaeinvígið.

KR-stelpur byrjuðu leikinn með miklum látum og Keflavíkurstúlkur vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið. Þegar fyrst leikhluti var allur leiddi KR 26-8.

KR-stúlkur héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta, slógu hvergi af og gengu til búningsherbergja með 19 stiga forskot, 45-26.

Keflavíkurstúlkur hafa að öllum líkindum fengið að heyra það í klefanum í hálfleik því þær mættu snældubrjálaðar til síðari hálfleiks. KR-stúlkum var nokkuð brugðið og þegar leikhlutinn var allur var munurinn aðeins átta stig, 51-43.

KR-stúlkur tóku sig saman í andlitinu í lokafjórðungnum. Hleyptu Keflavík ekki nær og fóru að breikka bilið á nýjan leik. Þær unnu að lokum góðan sigur, 69-54, og þurfa aðeins einn sigur í viðbót til þess að komast í úrslitarimmuna.

KR-Keflavík  69-54 (45-26)

Stig KR: Hildur Sigurðardóttir 19 (6 frák.), Margrét Kara Sturludóttir 13, Guðrún Ámundadóttir 9, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 9 (16 frák.), Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 8 (8 frák.), Helga Einarsdóttir 8, Heiðrún Kristmundsdóttir 3.

Stig Keflavíkur: Bryndís Guðmundsdóttir 21 (12 frák.), TaKesha Watson 15 (11 frák.), Birna Valgarðsdóttir 9, Pálína Gunnlaugsdóttir 6, Svava Stefánsdóttir 2, Erla Reynisdóttir 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×