Patrick Vieira lét hafa það eftir sér í dag að hann væri að förum frá ítölsku meisturunum í Inter Milan ef hann fengi ekki að spila meira með liðinu. Vieira hefur aðeins spilað í 194 mínútur á tímabilinu til þessa og var vegna þess ekki valinn í franska landsliðshópinn fyrir leiki á móti Færeyjum og Austurríki seinna í þessum mánuði.
„Staða mín er að verða nokkuð flókin þar sem ég fæ ekki að spila. Ég vil samt ekki ákveða neitt fyrir desember," sagði Vieira í viðtali við franska íþróttablaðið L'Equipe. Esteban Cambiasso og Sulley Muntari hafa hingað til verið fyrstu kostir hjá Jose Mourinho, þjálfara Inter.
„Ef málin þróast ekki í rétta átt þá þarf ég að taka nauðsynlegar ákvarðanir," sagði Viera og sagðist aðspurður þá eiga við að hann þyrfti þá að yfirgefa Inter í janúarglugganum.
„Ef hlutirnir breytast ekkert þá fer ég frá Inter í janúar. Það kemur mér í slæma stöðu gagnvart landsliðinu ef að ég fær ekkert að spila," sagði Viera sem á að baki 107 landsleiki fyrir Frakka.
Inter tekur á móti Udinese í ítölsku deildinni og það er almennt búist við því að Patrick Vieira þurfi þar að sætta sig við að sitja á bekknum.