Handbolti

Fram nældi í stig gegn toppliði Hauka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stella Sigurðardóttir átti góðan leik fyrir Fram í dag.
Stella Sigurðardóttir átti góðan leik fyrir Fram í dag.

Þrír leikir fóru fram í N1-deild kvenna í dag þar sem hæst bar jafntefli Fram og toppliðs Hauka í Safamýrinni. Haukar hafa nú eins stigs forystu á Stjörnuna sem vann sigur á FH í dag.

Leik Fram og Hauka lauk með 30-30 jafntefli eftir að Haukar voru með tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12. Haukar komust mest sex mörkum yfir í fyrri hálfleik en Framarar bitu frá sér í þeim síðari.

Stella Sigurðardóttir átti stórleik og skoraði tíu mörk fyrir Fram en þær Karen Knútsdóttir og Sara Sigurðardóttir komu næstar með fjögur mörk hvor.

Hjá FH var Hanna G. Stefánsdóttir markahæst með sjö mörk. Erna Þráinsdóttir og Ramune Pekarskyte skoruðu sex og Nína Kristín Björnsdóttir fimm.

Stjarnan vann sigur á FH á útivelli, 24-20, eftir að staðan í hálfleik var 11-8. Sólveig Lára Kjærnested skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna, Alina Petrache fimm og Þorgerður Anna Atladóttir fjögur.

Hjá FH var Ragnhildur Guðmundsdóttir markahæst með átta mörk og Gunnur Sveinsdóttir kom næst með fimm.

Að síðustu gerðu Fylkir og HK jafntefli, 24-24, eftir að Fylkismenn voru með eins marks forystu í hálfleik, 11-10. Sunna Jónsdóttir skoraði níu mörk fyrir Fylki og Rebekka Rut Skúladóttir sex.

Fyrir HK skoraði Pavla Plaminkova ellefu mörk og Brynja Magnúsdóttir fimm.

Fram er nú með ellefu stig í fjórða sæti en FH er í því fimmta með tíu. HK kemur næst með níu stig en Fylkir er enn á botninum en nú með þrjú stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×