Seðlabankastjóri á að vera grár og gugginn, helst leiðinlegur og með áhuga á hagfræði. Á þessum nótum lýsti Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fyrirmyndarbankastjóra Seðlabankans, á fundi Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki í Háskólanum í gær.
Bankinn ætti þannig ekki að vera ruslakista fyrir stjórnmálamenn því engin leið sé að vita hvaða hagsmuna þeir séu að gæta í ákvarðanatöku sinni. Gylfi, sem var með framsögu á þingi Alþjóðamálastofnunar rannsóknaseturs um smáríki í gær, tók það skýrt fram að hann legði það ekki í vana sinn að tala út fyrir efnið og blanda saman hagfræði og stjórnmálum. En þar sem stjórnmálamenn hafi kollsteypt efnahagslífinu hér hljóti hann að hafa heimild til þess nú.