„Carlo Ancelotti verður áfram ef við endum í þriðja sæti," sagði Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, í samtali við Gazzetta dello Sport. Staða Ancelotti sem þjálfari félagsins er alls ekki örugg.
AC Milan er í þriðja sætinu sem stendur, tveimur stigum á undan Fiorentina og fimm stigum á eftir Juventus. Galliani ýjar að því að ef liðið endar neðar muni Ancelotti taka pokann sinn.
Milan féll úr leik gegn Werder Bremen í UEFA-bikarnum í síðustu viku og tapaði fyrir Sampdoria í ítölsku deildinni um helgina. Milan hafnaði í fimmta sætinu á síðasta tímabili og stjórnarmenn liðsins sætta sig ekki við að það endurtaki sig.
Ancelotti hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Chelsea og er talinn möguleiki á því að hann færi sig yfir til Englands þegar Guus Hiddink lætur af störfum eftir tímabilið.