KR og Basel mætast í fyrri leik sínum í þriðju umferð Evrópudeildar UEFA á KR-velli í kvöld og því mikil eftirvænting í Vesturbænum enda stóð KR sig frábærlega í síðustu umferð með því að slá gríska liðið Larissa úr keppni.
Eingöngu er selt í sæti á KR-völlinn og því aðeins 1500 miðar í boði en þar af fara 130 miðar til stuðningsmanna svissneska liðsins sem munu fjölmenna á völlinn í kvöld.
Jónas Kristinsson hjá KR staðfesti í samtali við Vísi rétt í þessu að nú væru aðeins 250 miðar eftir og því betra að hafa hraðar hendur ætli menn að kíkja á völlinn í kvöld.
Dagskráin byrjar kl. 17 í Frostaskjólinu þar sem boðið verður upp á BBQ-grill stemningu og almenna upphitun fyrir stórleik kvöldsins sem hefst svo kl. 19.15.