Körfubolti

Logi: Sýndum mikið hjarta og börðumst eins og ljón

Ómar Þorgeirsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson.

Logi Gunnarsson átti flottan leik í 87-75 sigri Íslands gegn Hollandi í B-deild Evrópukeppninnar í Smáranum í dag.

Logi skoraði 16 stig og barðist grimmilega líkt og aðrir leikmenn liðsins gegn líkamlega hávaxnara og sterkara liði Hollendinga.

„Við gerðum bara nákvæmlega það sem við lögðum upp með og það var að vera gjörsamlega brjálaðir í vörninni. Þeir eru með mun hávaxnara lið og við vissum að við þyrftum að bæta það upp með grimmd og við sýndum mikið hjarta og börðumst eins og ljón.

Við börðum hressilega á þeim og létum finna fyrir okkur gegn gríðarlega sterku liði sem á heima í A-deildinni og er með tvo NBA leikmenn innanborðs. Við sýndum að við getum unnið hvaða þjóð sem er þó svo að við séum lágvaxnir. Við nýtum þá bara aðra hæfileika í staðinn," segir Logi.

„Þó svo að við höfum hitt vel, sérstaklega framan af leik, þá var það í raun varnarleikurinn sem skóp þennan sigur. Ég meina við náðum góðri forystu með því að halda svona sterkri þjóð í aðeins 31 stigi í fyrri hálfleik og þeir urðu rosalega pirraðir út af því.

Við vissum að þeir kæmu með áhlaup í síðari hálfleiknum en við stóðum það af okkur og uppskárum eftir því. Við gáfum út að við ætluðum okkur að stefna á annað sætið og það stendur bara áfram. Við förum bara í þá leiki sem eftir eru til þess að vinna þá," segir Logi ákveðinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×