Lögmenn knattspyrnumannsins David Beckham eru nú í viðræðum við forráðamenn LA Galaxy með það fyrir augum að framlengja lánssamning hans við AC Milan á Ítalíu.
Beckham hefur slegið í gegn með Milan undanfarið og hefur skorað og lagt upp mörk í hverjum leik. Forráðamenn Milan hafa mikinn hug á að halda honum á Ítalíu en lánssamningur hans rennur út þann 9. mars.
Adriano Galliani staðfesti að viðræður væru í gangi, þó hann væri hóflega bjartsýnn á framhaldið.
"Lögmenn Beckham eru í viðræðum við Galaxy og hann er auðvitað samningsbundinn í Bandaríkjunum. Ef þeir eru tilbúnir að skoða það að semja við okkur, höfum við áhuga á því. Við erum hvorki svartsýnir né bjartsýnir á að það takist, því Galaxy ræður þessu," sagði Galliani.
Hann ætlar að reyna að fá Beckham lánaðan til loka leiktíðar á Ítalíu eða jafnvel reyna að kaupa hann.