Diego Maradona, landsliðsþjálfari Argentínu, hefur sent framherjanum Hernan Crespo þau skilaboð að fari hann frá Inter verði hann valinn í landsliðið á nýjan leik.
„Ég sagði Crespo að ef hann fer frá Inter í sumar sé hann kominn í landsliðið," sagði Maradona sem hefur greinilega enn trú á leikmanninum.
Tækifæri Crespos hjá Inter hafa verið af skornum skammti. Hann hefur aðeins skorað eitt mark á þessari leiktíð sem er ekkert sérstaklega skrítið þar sem hann spilar sama og ekkert undir stjórn Jose Mourinho. Hann er ekki einu sinni í Meistaradeildarhópi liðsins.
Markvörðurinn Juan Pablo Carrizo, sem einnig er Argentínumaður, er kominn á bekkinn hjá Lazio eftir frekar dapra frammistöðu á milli stanganna.
Maradona hefur samt ekki sagt honum að skipta um félag en gaf þó í skyn að Carizzo gæti verið á förum frá félaginu enda hefði markvörðurinn rætt um það við félagið.