Hnefaleikararnir Miguel Cotto og Kelly Pavlik unnu báðir yfirburðasigra í titilbardögum sínum í gærkvöld og réttu þannig úr kútnum eftir fyrstu töp sín á ferlinum.
Cotto vann sigur á hinum snaggaralega Michael Jennings í fimmtu lotu WBO titilbardaga þeirra í Madison Square Garden í New York.
Portó Ríkó-maðurinn Cotto, sem tapaði WBA titli sínum í hendur Mexíkómannsins Antonio Margarito í júlí í fyrra, hefur nú unnið 33 sigra á ferlinum og tapað aðeins einum.
Bretinn Jennings máti sætta sig við að fara tvisvar í gólfið í fjórðu lotu og einu sinni í fimmtu áður en bardaginn var stöðvaður. Jennings tapaði sínum öðrum bardaga á ferlinum en hefur unnið 34.
Cotto vonast til að mæta sigurvegaranum úr viðureign Ricky Hatton og Manny Pacquiao í Las Vegas þann 2. maí í vor.
Öruggt hjá Pavlik á heimavelli
Kelly Pavlik tapaði fyrsta bardaga sínum á ferlinum í október í fyrra gegn hinum síunga og 43 ára gamla landa sínum Bernard Hopkins.
Bandaríkjamaðurinn endurheimti WBC og WBO titla sína í millivigt með sannfærandi sigri á Marco Antonio Rubio í gær.
Bardaginn var ekki sérlega spennandi og lumbraði Pavlik (35 sigrar, 1 tap) á Rubio (43 sigrar, 1 jafntefli, 5 töp) í níu lotur þangað til Mexíkóinn ákvað að komið væri gott og hætti áður en tíunda lotan hófst.
Fullt hús áhorfenda í Youngstown í Ohio fagnaði kappanum vel. "Það jafnast ekkert á við að koma aftur heim og jafna sig eftir tapið," sagði Pavlik ánægður og bætti við að hann væri til í að mæta hverjum sem er.