Hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong varð fyrir óskemmtilegri reynslu í undirbúningi sínum fyrir Kaliforníuhjólreiðarnar þegar hjóli hans var stolið.
Eins og búast má við frá sjöföldum meistara í Frakklandshjólreiðunum, er um að ræða rándýran grip. Hjóli hans var stolið úr vörubíl í Sacramento ásamt nokkrum öðrum hjólum og kostar gripur Armstrong hátt í 1,2 milljónir króna.
Armstrong var að keppa í heimalandi sínu í fyrsta skipti síðan hann hætti við að hætta.
"Þetta er eina hjólið sinnar tegundar í heiminum og því er erfitt að selja það," sagði Armstrong á heimasíðu keppnisliðsins. "Það er hægt að fá sér annað hjól, en ég á von á að því verði skilað," sagði Bandaríkjamaðurinn.